Hoppa yfir valmynd
21. maí 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Háskóli Íslands og Háskólinn á Hólum sameinast um háskólasamstæðu

Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. - mynd

Háskóli Íslands (HÍ) og Háskólinn á Hólum (HH) hafa komið sér saman um grunnatriði stjórnskipulags háskólasamstæðu. Um er að ræða stórt skref í átt að sameiningu skólanna tveggja í háskólasamstæðuna, sem fýsileikagreining gaf til kynna að yrði farsælt skref.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fagnar þessum mikilvæga áfanga.

„Það eru 16 ár frá því að síðasta sameining háskóla átti sér stað og löngu tímabært er að sameina fleiri skóla. Við erum of fámenn þjóð til að reka sjö háskóla og það að við dreifum kröftum okkar svo víða bitnar á gæðum námsins og nemendum sem eiga betra skilið. Samstarfið við háskólana tvo í þessu ferli hefur verið afar gott og ánægjulegt að sjá að þeir hafa báðir nálgast þetta stóra verkefni með opnum huga og vilja til að leysa þau úrlausnarefni sem komið hafa upp. Háskólasamstæða er þekkt erlendis og nálgun sem mun vonandi efla menntakerfið hérlendis.“

Hugmyndafræðin að baki háskólasamstæðunni er að einstakir háskólar eða stofnanir eflist umfram það sem mögulegt væri í óbreyttu skipulagi háskóla í landinu. Meðal markmiða háskólasamstæðu er aukin fjölbreytni í námsframboði, þróun námsgreina með áherslu á þarfir atvinnulífs og samfélags, samþætting prófgráða, aukin þjónusta við nemendur og kennara, breyttar aðferðir við kennslu og aukið rannsóknasamstarf. Að sögn ráðherra bindur hún miklar vonir við að sameining skólanna í háskólasamstæðu efli starf sameinaðs háskóla bæði á höfuðborgarsvæðinu en ekki síður á Hólum og á Sauðárkróki. 

Með slíkri samstæðu er átt við að tveir eða fleiri sjálfstæðir háskólar, sem njóta faglegrar viðurkenningar (e. accreditation), starfi saman undir merkjum háskólasamstæðu sem lýtur sameiginlegri yfirstjórn. Háskólasamstæðan mun því sameinast um stjórnsýslu og stoðþjónustu og nýta þannig þær grunnstoðir sem fyrir eru í HÍ, sem verður flaggskipsskóli samstæðunnar. Miðlæg stjórnsýsla háskólasamstæðunnar verður samræmd og mun vinna fyrir alla háskóla og stofnanir samstæðunnar.  

Háskólar og stofnanir munu bæði þróast sjálfstætt sem og í samstarfi um kennslu og rannsóknir. Kapp verður lagt á að hver háskóli og stofnun, innan samstæðunnar, haldi sinni sérstöðu og styrkleikum og að nauðsynleg uppbygging innviða eigi sér stað, sem forsenda fullgildrar þátttöku í samstæðunni.

Samkomulag þetta byggir á því að HH og aðrir háskólar sem kunna síðar að koma inn í samstæðuna eigi hver um sig sinn fulltrúa í háskólaráði HÍ.  Gert er ráð fyrir því að rektor HÍ verði formaður háskólaráðs samstæðunnar. Auk þess er gert ráð fyrir að stjórnendur háskóla og stofnana innan samstæðunnar skipi samstarfsráð háskólasamstæðunnar og verður samsetning samstarfsráðsins nánar útfærð í þríhliða samningi HÍ, HH og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins (HVIN). Stefnt er að því að samningurinn verði frágenginn í haust. Samstarfsráðið verður stefnumótandi ráð um samstarf og starfsemi háskóla og stofnana innan samstæðunnar. Ákvörðunum samstarfsráðsins verður fylgt eftir hjá miðlægri stjórnsýslu háskólasamstæðunnar. 

Gert er ráð fyrir að einn rektor verði yfir háskólasamstæðunni og mun rektor flaggskipsháskólans, þ.e. HÍ, verða rektor samstæðunnar. Staða rektora þeirra háskóla sem koma inn í háskólasamstæðuna verður nánar útfærð í þríhliða samningi sem nefndur er að ofan. Í samningnum verður tekið á fjárhags- og húsnæðismálum háskóla og stofnana samstæðunnar, auk þess hvernig standa skuli að ákvörðunum um framtíðarstarfsemi og skipulag einstakra háskóla eða stofnana í samstæðunni. Að óbreyttum lögum þarf jafnframt að tryggja að háskólar sem koma inn í samstæðuna á fyrstu stigum fái sinn fulltrúa inn í háskólaráð samstæðunnar.

Vonir standa til að samstæðan taki að fullu til starfa í upphafi næsta árs.

  • Háskóli Íslands og Háskólinn á Hólum sameinast um háskólasamstæðu - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum